
Langþráð tímamót
Welcome to Torcargo
Sautján ára saga okkar í flutningsþjónustu Cargow Thorship einkennist af farsælum vexti og stöðugt sterkari viðskiptasamböndum bæði hérlendis og erlendis. Grunnurinn að áætlunarsiglingum okkar hefur byggst upp í samstarfi og þjónustu við álverin, fyrst í Straumsvík og síðar einnig á Reyðarfirði. Hlutdeild okkar í almennum flutningum fyrir inn- og útflytjendur hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Fyrir það mikla traust sem okkur hefur ávallt verið sýnt í þessari mikilvægu þjónustu erum við afar þakklát.
Í kjölfar aukinna umsvifa hefur þörfin fyrir meira olnbogarými í starfseminni farið vaxandi. Tími er kominn á „næstu stærð“ og hana höfum við hannað og undirbúið af kostgæfni. Með því að gera Þorlákshöfn að þungamiðju gámaflutninga til og frá Reykjavík og nágrenni er ekki tjaldað til einnar nætur. Stórhöfuðborgarsvæðið þéttist stöðugt, akstursleiðir eru greiðfærar, siglingaleiðin frá Evrópu styttist, hagræðingartækifæri eru margvísleg og svigrúm til áframhaldandi stækkunar óhindrað.
Í samvinnu við sveitarfélagið Ölfus munum við byggja upp fyrsta flokks aðstöðu við höfnina. Áherslan á gæði og öryggi er að sjálfsögðu í öndvegi en hjá okkur kemst ekkert í fyrsta flokk nema ýtrustu kostnaðarhagkvæmni sé einnig gætt – og skilað til viðskiptavina. Í þeim efnum höfum við alla tíð látið verkin tala og munum halda því áfram.
Siglingar eftir nýja leiðakerfinu munu hefjast síðar á árinu en fram að þeim tíma verður þjónusta okkar með óbreyttu sniði. Þar til viðbótar hafa ný og spennandi tækifæri skapast með stofnun eigin fraktflugfélags, sem starfrækt verður undir merkjum Odin Cargo. Með daglegu flugi til og frá landinu, auk þess að nýta allt fraktrými í flugvélum Delta og Play, höfum við byggt upp öflugt kerfi bæði á sjó og í lofti. Á landi ráðum við svo yfir eigin akstursþjónustu, sem leggur sitt af mörkum til öruggs flutnings alla leið heim á hlað.
Við erum einn af 10 strategískum samstarfsaðilum DSV. Í því er mikil viðurkenning fólgin og ekki síður opnar það okkur kærkomin tækifæri til að gera enn betur. Með tengslunum við DSV fáum við virkan aðgang að yfir 70.000 starfsmönnum hjá um það bil 1.600 flutningamiðstöðvum og þjónustuskrifstofum í ríflega 80 löndum. Stökkbreyting er svo að verða í umfangi DSV um þessar mundir þegar öll starfsemi DB Schenker bætist við. Um leið er stærsta flutningsmiðlun í heimi orðin til.
Í anda DSV leggjum við sama metnað í örugga stórflutninga frá nálægum löndum og smæstu verkefni í fjarlægum heimsálfum. Í báðum tilfellum snúast gæðin um persónulega þjónustu, þekkingu, útsjónarsemi og áreiðanleika. Einmitt það sem stolt góðrar flutningsþjónustu snýst um.
Nýtt nafn og merki fyrir meginhlutann af starfsemi okkar hefur verið kynnt til leiks. Torcargo hefur augljósa skírskotun til eldri nafnanna í hinu sameinaða félagi, Thorship og Cargow. Þrumuguðinn Þór heldur sínum gamla velli í nýju nafni og ef grannt er skoðað má e.t.v. sjá að áhrifa hans gætir mögulega líka í nýju myndmerki félagsins. Þór er sagður sterkastur allra ása og verndari mannkyns. Það er góður félagsskapur.
